Snillingurinn John Galliano sýndi nýlega strandfatnaðarlínu fyrir Dior sumarið 2008. Sýningin átti sér stað í New York fyrir fullu húsi og stjörnur eins og Penelope Cruz, Dita Von Teese og Charlize Theron sátu á fremstu bekkjum.

Línan sem kallast „ Resort“ flokkast ekki undir hátískuföt en hún einkenndist engu síður af glys og glamúr þessa ævintýragjarna hönnuðar.

Galliano hafði stillt tímavélina í þetta sinn á sjöunda áratuginn og fötin voru undir sterkum áhrifum frá sixtís stjörnum eins og Barböru Hutton og Zsa Zsa Gabor.

Litir voru æpandi bleikir, túrkisgrænir og appelsínugulir og minnti þetta alltsaman á senu frá kvikmynd Peter Sellers „ The Party“ með tilheyrandi túberuðu hári, ýktri augnmálningu og ögn sjoppulegum tilþrifum.

Hápunktur sýningarinnar var þegar fyrirsæta í sundbol og himinháum hælum hrasaði og aðstoðarmaður þurfti að leiða hana niður sýningarpallinn svo að hún gæti haldið jafnvægi.

Sumsé, dragið upp hárspreyið, sólgleraugun og blauta eyelinerinn í sumar „a la Dior“.


.

.