Tónlist

Ópera úr útrýmingarbúðum

Germaine Tillion varð hundrað ára í vikunni.
Germaine Tillion varð hundrað ára í vikunni.

Óperetta sem samin var í útrýmingarbúðunum í Ravensbrück í Þýskalandi verður flutt í fyrsta sinn í París nú í vikulokin. Þýska vefritið Deutsche Welle greinir frá þessu.

Óperettan „Le Verfügbar aux enfers“, sem gæti útlagst sem „Hinir handhægu í helvíti“ á íslensku, samdi franski mannfræðingurinn Germaine Tillion árið 1943 þegar hún var einn þeirra 150.000 fanga sem haldið var í fyrrgreindum útrýmingarbúðum í Norður-Þýskalandi á árunum 1939-1945. Tillion starfaði með frönsku andspyrnuhreyfingunni á sínum tíma og var send í búðirnar árið 1942 ásamt móður sinni, sem dó í gasklefanum.

Í verkinu blandast áhrif frá þjóðlagatónlist, óperum og óperettum ásamt textum og kóreógrafíu Tillion en verkið var upphaflega ekki ætlað til sýninga. Viðfangsefni þess er lífið í útrýmingarbúðunum og dagleg niðurlæging þess.

Tillion varð hundrað ára í vikunni en hún hefur skrifað fjölda bóka og ritgerða um Ravensbrück-útrýmingarbúðirnar og andspyrnuhreyfinguna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×