Innlent

Fær ekki upplýsingar um símanúmer úr sendi í Eyjum

Frá Vestmannaeyjum.
Frá Vestmannaeyjum. Mynd/Vísir

Hæstiréttur hefur fellt út gildi úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um að símafyrirtækjunum Og fjarskiptum og Símanum verði gert skylt að upplýsa um öll símanúmer sem notuðu ákveðinn GSM-sendi í Vestmannaeyjum á tíu klukkustunda tímabili vegna rannsóknar á bruna í fiskimjölsverksmiðju Ísfélags Vestmannaeyja þann 16. desember síðastliðinn.

Það var Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum sem fór fram á upplýsingarnar þar sem grunur leikur á að kveikt hafi verið í verksmiðjunni. Vildi sýslumaður bera símanúmeralistana saman við önnur gögn lögreglunnar til að reyna að komast til botns í málinu og varð Héraðsdómur Suðurlands við kröfu hans.

Símafyrirtækin skutu hins vegar úrskurðinum til Hæstaréttar og sögðu að ekki væri fyrir hendi rökstuddur grunur um að tiltekinn sími eða fjarskiptatæki hefði verið notað í tengslum við refsivert brot. Þá væri krafan of víðtæk með tilliti til sjónarmiða um friðhelgi einkalífs.

Í dómi Hæstaréttar er tekið undir sjónarmið símafyrirtækjanna. Því hafi ekki verið haldið fram að notendur tiltekinna símtækja hjá fyrirtækjunum tengist þeim bruna sem til rannsóknar er. Krafan beinist þvert á móti að upplýsingum úr öllum símum sem notað hafi GSM-sendinn á tíu klukkustunda tímabili. Með þessu sé gengið lengra en heimilt sé, meðal annars vegna friðhelgis einkalífsins og því er kröfu sýslumanns hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×