Sameinuðu þjóðirnar segja að yfir 34 þúsund manns hafi fallið í ofbeldisverkum í Írak á síðasta ári og yfir 36 þúsund hafi særst. Þetta eru þrisvar sinnum hærri tölur en innanríkisráðuneyti Íraks hafa áætlað.
Haft er eftir sendifulltrúa á vegum Sameinuðu þjóðanna í Írak á fréttavef BBC að tölurnar séu unnar upp úr upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti Íraks, sjúkrahúsum, líkhúsum og ýmsum öðrum stofnunum í landinu. Yfirvöld í Írak hafa ekki brugðist við þessum útreikningum Sameinuðu þjóðanna en þau hafa áður dregið tölur frá samtökunum yfir fjölda fallinna í landinu í efa.
Sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna sagði þegar greint var frá tölunum að íröksk stjórnvöld yrðu að tryggja betur öryggi borgaranna og að koma yrði í veg fyrir að uppreisnarmenn næðu að lauma sér inni í öryggissveitir landsins.