Lögreglan í Reykjavík handtók rétt fyrir klukkan 23 mann á tvítugsaldri eftir ofsaakstur á Sæbraut og í Breiðholti. Maðurinn skapaði stórhættu og keyrði "eins og vitleysingur" að sögn lögreglu. Sex lögreglubílar veittu honum eftirför. Lögreglan reyndi að króa manninn af, m.a. með því að keyra á bíl hans. Tveir lögreglubílar eru skemmdir eftir aðgerðina.
Eftirförin hófst á Kleppsvegi þegar bíllinn kom inn í radar lögreglunnar á 180 km hraða. Hann virti ekki stöðvunarmerki lögreglu og lét hvorki umferðareyjar né umferðarljós stöðva sig.
Maðurinn var með tvo farþega í bílnum. Hann keyrði Sæbrautina og skapaði stórhættu í íbúðahverfi í Breiðholti með ofsaakstrinum. Síðan fór hann til baka Sæbrautinu og tókst lögreglu loks að stöðva bílinn á Sæbraut við Súðarvog eftir að hafa keyrt á hann.
Þremenningarnir voru fluttir á lögreglustöðina við Hverfisgötu, en gista fangageymslur þar til í fyrramálið þegar þeir verða yfirheyrðir. Ekki var unnt að yfirheyra þá í kvöld vegna annarlegs ástands, en þeir eru grunaðir um ölvun.