Erlent

Risabarn fæddist í Kína

Kínversk kona ól á föstudag barn sem er það þyngsta sem komið hefur í heiminn í þessu fjölmennasta landi heims síðan 1949. Drengurinn sem enn hefur ekki fengið nafn fæddist 6,25 kíló eða 25 merkur. Móður og barni heilsast vel. Móðirin er strætóbílstjóri og gamall íþróttamaður og er engin smásmíð sjálf, hún vegur 120 kíló.

Þetta er þó fjarri því að vera þyngsta barn sem fæðst hefur en samkvæmt heimsmetabók Guinness fæddist þyngsta barn sögunnar á Ítalíu árið 1955 en það vóg 10,2 kíló eða um 41 mörk.

Á Íslandi hafa á síðustu tíu árum fæðst þrjú börn sem hafa verið þyngri en sex kíló að sögn Reynis Tómasar Geirssonar sviðstjóra kvennalækninga á Landspítalanum. Þá segir hann þyngsta barn sem fæðst hefur á Íslandi hafa vegið nærri 30 mörkum. Ástæðan fyrir því að algengara sé að svona þung börn fæðist hér en í fjölmennasta landi heims, Kína er sú að kínversk börn eru að meðaltali meira en mörk léttari en íslensk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×