Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings sagðist í þrígang hafa verið í bátum á Miami, bátum sem teknir eru fyrir í Baugsmálinu. Hann sagði í Héraðsdómi Reykjavíkur rétt fyrir hádegið að hann væri þó ekki áhugamaður um báta og vissi ekki hvort um hefði verið að ræða Thee Viking sem tekist hefur verið á um.
Sigurður sagði að Baugsmenn hafi ekki boðið honum í bátana, en í eitt skipti hafi Jón Gerald Sullenberger boðið honum. Ekki hafi verið um formleg boð að ræða.
Sigurður var spurður út í meinta tilhæfulausa 13 milljón króna bókhaldsfærslu sem Baugur fékk fyrir milligöngu með hlutabréf í Baugi frá Kaupþingi til Reitan Gruppen í Noregi. Hann staðfesti að forráðamenn Baugs hafi talið að þeir hafi átt rétt á þóknuninni, en mundi ekki hvort það hefði gengið eftir. Þóknunin var ekki færð í bókhald Kaupþings, en Sigurður taldi ekki ólíklegt að gengið hefði verið frá kröfunni í tengslum við önnur viðskipti við Baug.
Gestur Jónsson verjandi Jóns Ásgeirs spurði Sigurð um kaupréttarsamninga sem gerðir voru við þrjá hæst settu stjórnendur Baugs við stofnun fyrirtækisins árið 1998. Hann kannaðist við að slíkir samningar hafi verið gerðir við Jón Ásgeir Jóhannesson, Tryggva Jónsson og Óskar Magnússon. Engin leynd hafi hvílt yfir þeim eins og ákæruvaldið hafi haldið fram og þeir hafi á engan hátt verið óeðliliegir.
Eftir hádegið mætir Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri Kaupþings til yfirheyrslu og Óskar Magnússon fyrrverandi stjórnarformaður Baugs á eftir honum.