Bandarísk Herkúles herflugvél þurfti að lenda á Keflavíkurflugvelli í kvöld vegna bilunar í vökvakerfi vélarinnar. Vélin lenti heilu og höldnu á flugvellinum rétt fyrir hálfsjö í kvöld.
Að sögn Friðþórs Eydals, fulltrúa flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli, voru björgunarsveitir og slökkvilið sett í viðbragðsstöðu. Flugmenn vélarinnar urðu síðan að setja hjól og vængbörð niður handvirkt fyrir lendingu. 22 voru um borð í flugvélinni.
Ekki er vitað á hvaða leið hún var þegar að hún þurfti að lenda í Keflavík en hún var að koma frá herstöð Bandaríkjamanna í Thule á Grænlandi.

