Framhaldsskólarnir eru „svartur blettur" á menntakerfi okkar og það yrði jákvæð þróun að færa rekstur þeirra til sveitarfélaganna. Þetta segir
Stefán Jón Hafstein borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Hann veltir upp tillögu um að lengja skólaskyldualdur í 18 ár. Enn fremur fagnar hann ákvörðun sjálfstæðismanna um tilraunaverkefni með rekstur framhaldsskóla.
Stefán segir Samfylkingarmenn hafa lagt fram efnislega sömu tillögu síðastliðið haust. Hún hafi verið felld á „innan við mínútu." Hann telur það hrós og þakkarvert að tillagan sé samþykkt nú.
Þá segir hann rök menntamálaráðherra í því samhengi um minni fjölbreytni í námsframboði á landsbyggðinni ekki á rökum reista. Sé viljinn fyrir hendi sé ekkert því til fyrirstöðu að auka námsframboð á landsbyggðinni.
Stefán spáir jákvæðri þróun á rekstri framhaldsskóla taki sveitarfélögin við rekstri þeirra. Líkt og átti sér stað þegar rekstur grunnskólanna var færður úr höndum ríkisvaldsins.