Körfubolti

Sam Mitchell þjálfari ársins í NBA

Sam Mitchell
Sam Mitchell NordicPhotos/GettyImages

Sam Mitchell hjá Toronto Raptors var í dag kjörinn þjálfari ársins í NBA deildinni. Mitchell þótti framan af vetri einn líklegasti þjálfarinn til að verða rekinn úr starfi eftir erfiða byrjun liðsins, en síðari hluti leiktíðar var frábær hjá liðinu sem tryggði sér heimavallarrétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Mitchell fékk 394 atkvæði í kjörinu en Jerry Sloan hjá Utah Jazz varð í öðru sæti með 301 atkvæði. Avery Johnson hjá Dallas varð þriðji með 268 atkvæði og Jeff Van Gundy hjá Houston fékk 134 atkvæði í fjórða sætinu.

Mitchell er aðeins sjötti þjálfarinn í sögu Toronto Raptors og undir hans stjórn vann liðið 20 fleiri leiki í deildarkeppninni í ár en í fyrra. Hann er nú á lokaárinu á samningi sínum en viðræður eru uppi um framlengingu. Mithcell verður í eldlínunni með liði sínu á heimavelli í kvöld þar sem Raptors tekur á móti New Jersey Nets í öðrum leik liðanna í úrslitakeppni Austurdeildar. New Jersey vann góðan sigur á útivelli í fyrsta leiknum, en leikur kvöldsins verður sýndur beint á NBA TV sjónvarpsstöðinni og hefst klukkan 23:00.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×