Körfubolti

Framkvæmdastjórar tippa á Dirk Nowitzki

NordicPhotos/GettyImages

Nú styttist óðum í að fjölmiðlamenn í Bandaríkjunum velji verðmætasta leikmann ársins í deildarkeppninni í NBA körfuboltanum. Dirk Nowitzki hjá Dallas Mavericks þykir afar líklegur til að hreppa hnossið að þessu sinni en hann hlaut nokkuð afgerandi kosningu í könnun sem gerð var í gær þar sem framkvæmdastjórar allra liða í deildinni voru spurðir um sitt álit.

Fastlega er reiknað með því að það verði annað hvort tvöfaldur verðmætasti leikmaður deildarinnar Steve Nash hjá Phoenix eða vinur hans Nowitzki sem fái nafnbótina að þessu sinni. Framkvæmdastjórarnir hallast þó að Nowitzki ef marka má könnunina.

Nowitzki fékk þar 17 atkvæði í fyrsta sæti og 8 í annað sæti og samtals 109 stig. Nash varð annar með 82 stig og Kobe Bryant hjá LA Lakers hlaut 21 stig í þessari könnun. Nowitzki var með 24,6 stig að meðaltali í leik í vetur og hirti 8,9 fráköst, en lið Dallas vann 67 leiki af 82 í deildarkeppninni sem er einstakur árangur.

Í þessari sömu könnun spáðu framkvæmdastjórarnir því nær einróma að Brandon Roy hjá Portland yrði valinn nýliði ársins, Marcus Camby hjá Denver varnarmaður ársins og Kevin Martin hjá Sacramento sá maður sem tekið hefði mestum framförum.

Þeir spáðu því að Leandro Barbosa hjá Phoenix yrði valinn besti varamaðurinn og það kom á daginn - en þeir höfðu ekki rétt fyrir sér í valinu á þjálfara ársins, því þar spáðu þeir Avery Johnson hjá Dallas sigri en hann hafnaði aðeins í þriðja sæti.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×