Körfubolti

Heitt í kolunum í Dallas

Leikmenn Golden State voru afar óhressir með störf dómara í nótt og tveir þeirra létu vísa sér úr húsi í látunum.
Leikmenn Golden State voru afar óhressir með störf dómara í nótt og tveir þeirra létu vísa sér úr húsi í látunum. NordicPhotos/GettyImages

Dallas jafnaði í nótt metin í 1-1 í einvígi sínu við Golden State í úrslitakeppninni í NBA með 112-99 sigri í öðrum leik liðanna. Gestirnir spiluðu vel í fyrri hálfleik, en misstu tökin á leiknum í síðari hálfleik þegar bæði Baron Davis og Stephen Jackson var hent í bað fyrir kjaftbrúk.

Avery Johnson þjálfari Dallas gerði aftur breytingar á liði sínu og sneri sér á ný til byrjunarliðsins sem varð langefst í deildarkeppninni í vetur. Það skilaði tilætluðum árangri og nú fara næstu tveir leikir fram í Oakland á heimavelli Warriors. Jason Terry skoraði 28 stig fyrir Dallas, Dirk Nowitzki 23 og Josh Howard skoraði 22 stig og hirti 11 fráköst. Stephen Jackson skoraði 30 stig fyrir Golden State og Monta Ellis 20 stig.

San Antonio hristi af sér tap í fyrsta leiknum gegn Denver og sigraði 97-88 á heimavelli. Staðan í þessu einvígi er því orðin 1-1 og næstu tveir leikir fara fram í Denver. San Antonio hafði örugga forystu lengst af í leiknum, en gestirnir gerðu hann áhugaverðan með því að minnka muninn niður í þrjú stig þegar um mínúta var eftir - en komust ekki lengra. Tim Duncan skoraði 22 stig fyrir San Antonio, Tony Parker 20 og Manu Ginobili 17 stig. Carmelo Anthony skoraði 26 stig og hirti 10 fráköst fyrir Denver, Allen Iverson skoraði 20, Nene skoraði 17 stig og Marcus Camby skoraði 10 stig og hirti 18 fráköst.

Loks vann Cleveland nokkuð öruggan sigur á meiðslum hrjáðu liði Washington 109-102. LeBron James skoraði 27 stig, hirti 8 fráköst og gaf 7 stoðsendingar hjá Cleveland, Drew Gooden skoraði 24 stig og hirti 14 fráköst og Larry Hughes skoraði 19 stig og hirti 8 fráköst. Antawn Jamison skoraði 31 stig og hirti 10 fráköst fyrir Washington.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×