Innlent

Forsætisráðherra tjáir sig um varnarsamninga

Bein útsending verður á Vísi í dag frá blaðamannafundi klukkan 14 í Stjórnarráðinu en þar svarar Geir H. Haarde forsætisráðherra spurningum blaðamanna um samstarf Íslendinga annars vegar og Norðmanna og Dana hins vegar í varnar- og öryggismálum.

Valgerður Sverrisdóttur utanríkisráðherra og Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, undirrita samkomulag þessa efnis í Osló um hádegisbil og í kjölfarið undirritar Valgerður viljayfirlýsingu við Dani um samstarf um öryggis- og varnarmál og almannavarnir.

Ráðamenn hafa þagað þunnu hljóði um innihald yfirlýsingarinnar en samkvæmt norska blaðinu Aftenposten felur hún það meðal annars í sér að norskar herþotur, sem staðsettar verða í Keflavík, muni sjá um eftirlit í lofthelgi Íslands.

Samstarfssamningurinn er undirritaður í tengslum við utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins í Osló sem fram fer í dag og á morgun. Samkvæmt tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu er fundurinn óformlegur vorfundur utanríkisráðherra þar sem meðal annars Afganistan og eldflaugavarnir verða til umræðu sem og málefni Balkanskaga og stækkun Atlantshafsbandalagsins.

Þá funda utanríkisráðherrar bandalagsins með utanríkisráðherra Rússlands í NATO Rússlandsráðinu og með utanríkisráðherra Úkraínu í samstarfsráði bandalagsins og Úkraínu. Í kvöld situr utanríkisráðherra svo kvöldverð í boði norska utanríkisráðherrans þar sem rætt verður um Kósóvó og Miðausturlönd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×