Læknar í Oregon í Bandaríkjunum segja enga furðu að níu ára drengur þar hafi þjáðst af eyrnaverk á dögunum, þar sem tvær köngulær höfðu hreiðrað um sig í eyra hans.
Jesse Courtney fann fyrir slæmum verk í skólanum og hringdi í móður sína sem fór þegar með hann til læknis. Sá tók strax eftir því að aðskotahlutur var í eyra drengsins en sá ekki hvað þar var á ferð. Eyra hans var hreinsað og út rann dauð kónguló. Enn var sprautað vatni í eyrað og út kom lifandi kónguló.
Ekki er vitað hvernig þeim tókst að koma sér svo kyrfilega fyrir í eyrum Jesse. Hann fékk að eiga áttfættlingana og segir það afar flott að hafa fengið þessa óboðnu gesti í eyrað.