Innlent

Versta áfall sem við höfum orðið fyrir

Þetta er versta áfall sem við höfum orðið fyrir sagði Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, í myndveri Stöðvar 2 í kvöld. Flokkurinn nýtur nú fylgis 11,5 prósenta landsmanna og fær 7 þingmenn samkvæmt nýjustu tölum.

Jón taldi ólíklegt miðað við þetta að Framsóknarflokkurinn færi í ríkisstjórn og taldi eðlilegt og lýðræðislegt að stjórnarandstaðan fengi stjórnarmyndunarumboð.

Geir H. Haarde forsætisráðherra var ekki búinn að gefa upp alla von og sagði að ef ríkistjórnin fengi 32 þingmenn héldi hún velli. Úrslitin lægju ekki fyrir.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði niðurstöðuna innsigla Samfylkinguna sem stóran og mikinn jafnaðarmannaflokk. Of snemmt væri þó að segja um stjórnarmyndun en að sjálfsögðu myndi Kaffibandalagið ræða saman fengi það til þess fylgi. Ef ríkisstjórnin félli væri það forsetans að fela einhverjum stjórnarmyndunarumboð.

Katrín Jakbosdóttir, varaformaður Vinstri grænna, sagðist harla sátt við útkomuna. Hún hefði þó vonast eftir meira fylgi í Suðversturkjördæmi þannig að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, önnur á lista flokksins í kjördæminu, kæmist inn.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, benti á að flokkur hans hefði nokkurn veginn haldið sínu þrátt fyrir að hann hefði lenti í ólgusjó í tengslum við innanflokksátök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×