Innlent

Vantar 294 atkvæði til þess að ríkisstjórnin haldi velli

Samkvæmt nýjustu tölum þarf Framsóknarflokkurinn aðeins 294 atkvæði í viðbót til þess að ýta út þingmanni Samfylkingarinnar. Þá væri Framsókn með 8 menn og ríkisstjórnin myndi halda. Ljóst er að mjög mjótt er á mununum og viðbúið að staðan geti breyst um leið og nýjar tölur koma inn.

Ef ríkisstjórnin fellur eru margir möguleikar í boði. Ef Samfylking og Sjálfstæðiflokkur mynda með sér stjórn yrðu 43 þingmenn í meirihluta og 20 í stjórnarandstöðu en það yrði gríðarlega sterk stjórn. Árni Mathiesen vildi ekki útiloka þann möguleika þegar Páll Ketilsson spurði hann út í möguleikann á því.

Svo virðist sem að fylgisaukning hjá Vinstri grænum sé það sem er að fella ríkisstjórnina en þeir bæta við sig fjórum þingmönnum og eru sem stendur með níu menn inni. Þá tapar Framsóknarflokkurinn fimm mönnum. Þrír ráðherrar þeirra eru úti sem stendur. Jón Sigurðsson, Jónína Bjartmarz og Siv Friðleifsdóttir eru öll úti. Flokkurinn er í kringum 6 prósent í Reykjavíkurkjördæmunum en er að bæta við sig úti á landi, sérstaklega í Norðvesturkjördæmi.

Á kjörskrá voru 221.368 og þar af kusu 181.121. Kjörsókn var 81,8%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×