Innlent

Jónína ekki inni þegar búið er að telja í Reykjavík suður

MYND/GVA

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra er ekki inni þegar búið er að telja öll atkvæði í hennar kjördæmi, Reykjavíkurkjördæmi suður. Alls voru 43.391 manns á kjörskrá í kjördæminu og kusu 35.284 sem þýðir að kjörsóknin var 81,3 prósent.

Framsóknarflokkurinn fékk 2080 atkvæði í kjördæminu eða 5,9 prósenta fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn fékk hins vegar flest atkvæði eða 13.841 og samtals 39,2 prósent. Fær flokkurinn fimm þingmenn. Frjálslyndir fengu 2385 atkvæði eða 6,8 prósent og einn þingmann.

Samfylkingin fær þrjá þingmenn í kjördæminu og 29 prósent atkvæða, samtals 10.233 atkvæði. Vinstri græn fengu 5065 atkvæði og 14,4 prósent atkvæða og tvo þingmenn. Íslandshreyfingin náði ekki inn manni en fékk 1680 atkvæði. Auðir og ógildir seðlar voru 562.

Þingmannafjöldi flokkanna getur breyst úr frá niðurstöðu í öðrum kjördæmum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×