Innlent

Sáttur ef Frjálslyndi flokkurinn heldur sínum þingmannafjölda

Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis náði tali af Magnúsi Þór Hafsteinssyni, varaformanni Frjálslynda flokksins, þar sem hann var á leiðinni til síns heima en á þessari stundu er hann á leið út af þingi.

Magnús Þór sagði að hann yrði að sjá til hvort hann kæmist inn á þing og aðspurður vildi hann engu spá þar um. Hann gæti vel unnt Grétari Mar Jónssyni, oddvita flokksins í Suðurkjördæmi, að komast á þing í stað hans.

Þá sagði Magnús Þór að hann væri sáttur við að flokkurinn virtist ætla halda sínum fjórum þingmönnum frá síðustu kostningum. Flokkurinn hefði gengið í gegnum erfiða tíma og ef hann héldi sínum fjórum þingmönnum væri hann búinn að festa sig í sessi í íslenskum stjórnmálum.

Magnús Þór taldi útlendingaumræðuna í tengslum við flokkinn ekki hafa skemmt fyrir honum og þá vakti hann athygli á því að flokkurinn hefði styrkt stöðu sína á höfuðborgarsvæðinu, sem væri athyglisvert, en bæði Jón Magnússon í Reykjavíkurkjördæmi suður og Kolbrún Stefánsdóttir í Suðvesturkjördæmi eru á leið inn á þing miðað við síðustu tölur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×