Innlent

Jón og Jónína einu ráðherrarnir sem ekki komust á þing

Björn Gíslason skrifar
Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz á kosningavöku framsóknarmanna í Þjóðleikhúskjallaranum í gærvöld.
Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz á kosningavöku framsóknarmanna í Þjóðleikhúskjallaranum í gærvöld. MYND/Valgarður

Tveir ráðherrar úr ríkisstjórn síðasta kjörtímabils komust ekki á þing og komu báðir úr Framsóknarflokknum. Þetta voru þau Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins og viðskipta- og iðnaðarráðherra, og Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra. Bæði buðu þau sig fram í Reykjavík, Jónína í Reykjavíkurkjördæmi suður og Jón í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra, Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra og Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra náðu öll öruggu kjöri en Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra kom inn sem kjördæmakjörinn þingmaður í lokatölum í Suðvesturkjördæmi eftir að hafa verið úti mestallt kvöldið.

Geir H. Haarde forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, Árni Mathiesen fjármálaráðherra, Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra náðu öll öruggu kjör í gær.

Þá komust formenn og varaformenn Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna inn á þing en formaður Framsóknarflokksins ekki og heldur ekki Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×