Körfubolti

Viðtöl eftir annan leik San Antonio og Cleveland

Mike Brown, þjálfari Cleveland, átti fá svör við lélegum leik sinna manna í nótt þegar liðið steinlá öðru sinni fyrir San Antonio í lokaúrslitum NBA deildarinnar. Cleveland lenti mest um 30 stigum undir í leiknum en náði að bjarga andlitinu með góðri rispu í lokin. San Antonio sigraði 103-92 og hefur 2-0 forystu í einvíginu. Smelltu á spila til að sjá viðbrögð þjálfara og leikmanna í nótt.

Fyrstur á svið stígur Gregg Popovich þjálfari San Antonio og talar um að lið hans hafi spilað vel í þrjá leikhluta en svo slakað á í restina. Hann segist þó ánægðastur með að hafa landað sigrinum.

Mike Brown þjálfari Cleveland sagði sína menn verða að byrja miklu betur í leikjunum en þeir hafi verið að gera og sagði leikmenn vera að gera ódýr mistök og verða að vera miklu grimmari en þeir hafi sýnt í fyrstu tveimur leikjunum.

LeBron James hjá Cleveland talar um að það hafi verið erfitt að lenda snemma í villuvandræðum og segir það hafa kostað liðið í byrjun. Manu Ginobili hjá San Antonio segir að liðið hafi alltaf unnið amk einn leik á útivelli í úrslitunum undanfarin ár og vill að liðið nái að gera það sem fyrst í Cleveland í næstu leikjum.

Tony Parker hjá San Antonio varar við of mikilli bjartsýni og minnir á að liðið hafi unnið Detroit með 20 stigum í leik tvö á heimavelli í úrslitunum fyrir tveimur árum - en hafi svo verið burstað í leiknum á eftir í Detroit. LeBron kemur svo aftur í mynd og segir að lið Cleveland hafi enn nóg sjálfstraust og hafi áður lent í því að vera undir 2-0 en snúa seríu sér í hag.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×