Þann 28. júní síðastliðinn afhjúpaði Kvennréttindafélag Íslands minnisvarða um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur við hátíðlega athöfn. Minnisvarðinn er staðsettur á fæðingarstað hennar að Haukagili í Vatnsdal, A-Húnavatnssýslu.
Kvennréttindafélag Íslands ákvað að minnast Bríetar með þessum hætti á aldarafmæli félagsins en félagið var stofnað árið 1907 á heimili Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og var hún fyrsti formaður félagsins og gengdi þeirri stöðu í 20 ár. Auk þess var Bríet ein fjögurra kvenna sem voru fyrstar kosnar inn í bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1908. Einnig var Bríet fyrst íslenskra kvenna til að halda opinberan fyrirlestur árið 1887.
Hreppsnefnd Húnavatnshrepps og eigandi Haukagils komu einnig að undirbúningi og uppsetningu minnisvarðarins.