Íþróttaráðið í Kína gagnrýnir miðherjann Yao Ming harðlega í nýjustu útgáfu China Sports Daily sem er málgagn ráðsins í landinu. Ming er gagnrýndur fyrir að koma seint til æfinga með landsliðinu og þar setja menn stórt spurningamerki við það hve miklum tíma hann eyðir í að sinna einkalífinu. Þetta þykir ekki bera vott um hollustu við þjóðina.
Yao Ming leikur með Houston Rockets í NBA deildinni og var hann í blaðinu gagnrýndur fyrir að taka sér of langa hvíld eftir síðasta keppnistímabil. Þá þótti íþróttaráðinu í Kína hann taka allt of langan tíma í að undirbúa brauðkaupið sitt í sumar og spurningamerki voru sett við það að hann eyddi tíma í að koma fram á Ólympíuleikum fatlaðra og starfi sem hann vann við að kynna fyrirhugaða Ólympíuleika í Peking á næsta ári.
"Sama hversu göfugt þetta starf hans er, má það ekki taka svona mikinn tíma frá honum. Alveg sama hversu dásamlegt einkalífið er - verður það ekki borið saman við dýrðina sem fylgir því að keppa fyrir hönd þjóðarinnar allrar," sagði í greininni í China Sports Daily.
Þetta er harðasta gagnrýni sem Yao Ming hefur orðið fyrir í heimalandi sínu á ferlinum, en þó er þetta ekki í fyrsta skipti sem andar köldu á milli íþróttaráðsins og körfuboltamanns. Framherjinn Wang Zhizhi hjá Dallas Mavericks - sem á sínum tíma var fyrsti Kínverjinn til að spila í NBA - var á sínum tíma settur í fimm ára útlegð frá landsliðinu eftir að hann neitaði eitt sinn að spila fyrir landsliðið. Hann fékk ekki að spila fyrir þjóð sína aftur fyrra en hann baðst auðmjúklega afsökunar.