Körfubolti

Sigurður: Breiddin í hópnum er mikil

Sigurður Ingimundarson
Sigurður Ingimundarson Mynd/Hörður
"Leikstíll okkar er auðveldari að eiga við á upphafsmínútum leiksins, en þegar líða tekur á er eins gott að mótherjinn sé tilbúinn að spila á móti svona vörn í 40 mínútur. Það var virkilega gaman að sjá samheldnina í hópnum í varnarleiknum og hvað menn voru duglegir að finna þann sem var heitur í sókninni," sagði Sigurður Ingimundarson landsliðsþjálfari eftir sigurinn á Austurríkismönnum í gærkvöld.

"Þessir leikir núna í sumar hafa verið rosalega skemmtilegir og einn tapleikur á heilu sumri er bara mjög gott," sagði Sigurður, en liðið hefur aðeins tapað einum leik af síðustu tíu í öllum keppnum. Við spurðum Sigurð hvernig honum þætti nýju mennirnir í liðinu hafa fyllt í skörð þeirra sem ekki voru með í síðustu leikjum, en í liðið vantaði menn á borð við Jón Arnór Stefánsson, Hlyn Bæringsson, Hörð Axel Vilhjálmsson og Sigurð Þorvaldsson.

"Það skemmtilega við þetta er að á þessu sumri erum við búnir að taka inn sex nýliða og þar fyrir utan erum við annað eins af mönnum sem gera tilkall til þess að vera í þessum hóp og það segir mér að breiddin í þessu liði er líklega meiri en menn gera sér grein fyrir. Það sýnir sig líka með frammistöðu þessara stráka núna að þeir sem voru ekki með núna verða að hafa fyrir því að halda sæti sínu í liðinu og það gerir þetta bara enn skemmtilegra."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×