Erlent

Loftsteinn veldur veikindum

Hundruð manna hafa þurft að leita sér læknishjálpar í þorpinu Carancas í Perú eftir að það sem talið er loftsteinn féll til jarðar í grennd þess og gufur úr gígnum eftir steininn lagði yfir svæðið. Fólk sem hefur farið að skoða gíginn kvartar undan ógleði, höfuðverkjum, uppköstum og svima.

Þorpið liggur í um 1.300 km fjarlægð suður af höfuðborginni Lima og er hópur af vísindamönnum nú á leið á staðinn til að rannsaka málið.

BBC hefur eftir einum af íbúum Carancas, Heber Mamani að það sem féll til jarðar sé grafið djúpt niður í gígnum. Mamani segir einnig að naut hafi drepist í þorpinu, margt af öðru búfé hafi veikst og að íbúar svæðisins séu almennt dauðskelkaðir yfir því sem er að gerast þarna.

Gígurinn er um 30 metra að ummáli og sex metra djúpur. Kjarnorkustofnun Perú hefur gefið út yfirlýsingu um að engin geislavirkni sé í grennd við hann og útilokar þar með að um gerfihnött hafi verið að ræða. Þetta er venjulegur loftsteinn segir talsmaður stofnunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×