Innlent

Reikna með tveggja daga aðal­með­ferð í máli Alberts

Árni Sæberg skrifar
Albert ásamt verjanda sínum, Vilhjálmi Hans Vilhjálmssyni, þegar málið var til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Albert ásamt verjanda sínum, Vilhjálmi Hans Vilhjálmssyni, þegar málið var til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Aðalmeðferð er hafin í máli knattspyrnumannsins Alberts Guðmundssonar, sem sætir ákæru fyrir nauðgun, í Landsrétti. Samkvæmt dagskrá réttarins er reiknað með að henni ljúki á morgun og því er dóms að vænta innan fjögurra vikna og eins dags. Þinghald er háð fyrir luktum dyrum.

Albert, sem leikur fyrir Fiorentina á Ítalíu og er lykilmaður í íslenska landsliðinu, var ákærður fyrir nauðgun í júní í fyrra. Hann var mættur í Landsrétt í morgun þegar aðalmeðferðin hófst.

Kom verjanda á óvart að dóminum hafi verið áfrýjað

Þann tíunda október í fyrra var hann sýknaður en dómari málsins mat framburð hans trúverðugari en framburð konunnar sem kærði hann. Þá var hún sögð hafa verið margsaga í framburði sínum.

Ríkissaksóknari ákvað að áfrýja dóminum þremur vikum eftir að hann var kveðinn upp en hann hafði til þess fjórar vikur.

„Það kemur á óvart að Ríkissaksóknari hafi ákveðið að áfrýja þessum dómi enda er dómurinn mjög vel rökstuddur og niðurstaðan lögfræðilega rétt,“ sagði Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, verjandi Alberts, í samtali við Vísi í tilefni af áfrýjuninni.

Dómur snemma í desember

Miðað við dagskrá Landsréttar fer málflutningur í málinu fram á morgun og frá málflutningi hafa dómarar fjórar vikur til þess að kveða upp dóm, ellegar þarf að flytja mál aftur. Því má reikna með að niðurstaða í málinu liggi fyrir snemma í desember.

Fari svo að Albert verði sakfelldur getur hann samkvæmt lögum um meðferð sakamála óskað eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Hafi ákærður maður verið sýknaður í héraði, líkt og Albert, en sakfelldur í Landsrétti, skal Hæstiréttur verða við áfrýjunarleyfisbeiðni hans, nema rétturinn telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar.


Tengdar fréttir

Albert sýknaður

Albert Guðmundsson knattspyrnumaður var í dag sýknaður af ákæru um nauðgun. Hann var ákærður fyrir að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við konu án hennar samþykkis. Dómurinn var kveðinn upp í héraðsdómi Reykjavíkur rétt fyrir klukkan eitt í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×