Körfubolti

Hardaway vinnur með samkynhneigðum

Hardaway situr fyrir brosandi á heimasíðu YES samtakanna
Hardaway situr fyrir brosandi á heimasíðu YES samtakanna

Körfuboltamaðurinn Tim Hardaway vinnur nú hörðum höndum að því að bæta fyrir skandalinn sinn fyrir sjö mánuðum þegar hann lýsti því yfir í útvarpsviðtali að hann hataði homma.

Ummæli Hardaway komust í fyrirsagnir blaða um allan heim og í kjölfarið var honum sagt upp öllum störfum sínum tengdum NBA deildinni. Hardaway baðst síðar afsökunar á orðum sínum, en á næstu vikunum bárust fréttir af því að kona hans hefði sagt skilið við hann og að hann væri orðinn gjaldþrota.

Þetta reyndist ekki rétt, en hvað sem því líður hefur stjörnuleikmaðurinn fyrrverandi átt afar erfitt uppdráttar. Hann lofaði að leita sér hjálpar út af þröngsýnum skoðunum sínum og þegar stuðningssamtökin YES leituðu til hans - var hann ekki lengi að bjóða sig fram.

Hardaway hefur nú haldið nokkra fyrirlestra hjá samtökunum þar sem hann talar um mikilvægi þess að vera vel upplýstur og að börn og unglingar geti fundið til öryggis óháð kynhneigð sinni. Umburðalyndi er jafnan efsta mál á dagskrá og fyrirlestrana sækir m.a. fjöldi samkynhneigðra.

Hardaway segist hafa gengið í gegn um hreint helvíti síðan hann missti sig í útvarpsviðtalinu forðum, en hefur forðast að veita viðtöl fyrr en nú því hann vildi ekki að litið yrði á störf sín sem gagngerða tilraun til að hreinsa mannorð sitt.

"Ég gerði mér enga grein fyrir hvað ég særði marga með orðum mínum og ég vil bara reyna að læra og bæta mig. Ég er í rauninni ekki að reyna að bæta fyrir neitt - ég er bara að reyna að öðlast skilning á hlutum sem ég hef ekki áttað mig á," sagði Hardaway.

Smelltu hér til að sjá fréttina frá 15. febrúar þegar Hardaway missti sig í útvarpsviðtalinu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×