Handbolti

Stjarnan vann Hauka í skrautlegum leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Inga Fríða Tryggvadóttir er hér í leiknum gegn Stjörnunni í kvöld.
Inga Fríða Tryggvadóttir er hér í leiknum gegn Stjörnunni í kvöld. Mynd/Anton

Íslandsmeistarar Stjörnunnar unnu í kvöld Hauka í heldur skrautlegum leik í N1-deild kvenna.

Lokatölur leiksins voru 18-16 og óhætt að segja að markvarsla og varnarleikur hafi verið í fyrirrúmi í kvöld.

Haukar komust reyndar í sjö marka forystu í fyrri hálfleik, 11-4. Stjörnumenn svöruðu með því að skora síðustu fimm mörkin í hálfleiknum. Staðan því 11-9.

Haukar skoruðu svo ekki nema fimm mörk í síðari hálfleik og aðeins eitt á síðustu átján mínútunum. Stjarnan gekk á lagið og innbyrti tveggja marka sigur.

Hanna G. Stefánsdóttir skoraði átta mörk í leiknum, þar af fimm úr vítum. Hún skoraði þar að auki fyrstu sjö mörkin af níu hjá Haukunum.

Nína K. Björnsdóttir kom næst hjá Haukum með þrjú mörk og markvörður liðsins, Laima Milauskaite, varði 24 skot.

Hjá Stjörnunni var Rakel Dögg Bragadóttir markahæst með átta mörk, þar af sex úr vítum. Ásta B. Agnarsdóttir og Ásdís Sigurðardóttir skoruðu þrjú mörk hver.

Florentina Grecu varði 21 skot í marki Stjörnunnar.

Með sigrinum færðist Stjarnan upp í þriðja sæti deildarinnar en liðið er með sjö stig eftir fjóra leiki.

Haukar sitja eftir í fimmta sæti með fjögur stig eftir fjóra leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×