Stjarnan vann þriggja marka sigur á Akureyri, 29-26, norðan heiða í fyrri leik dagsins í N1-deild karla.
Til að byrja með var jafnræði með liðunum en heimamenn á Akureyri tóku af skarið fljótlega og náðu mest fjögurra marka forystu. Staðan í hálfleik var þó 16-14, Akureyri í vil.
Í seinni hálfleik jöfnuðu Stjörnumenn sinn leik. Vörnin small saman og Roland Eradze fór að verja fleiri skot í marki Stjörnunnar. Þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka sigu gestirnir fram úr og unnu að lokum sigur sem fyrr segir, 29-26.
Magnús Stefánsson skoraði flest mörk Akureyringa, átta talsins, og Goran Gusic gerði sjö mörk.
Hjá Stjörnunni var Heimir Örn Árnason markahæstur með átta mörk og Ólafur Víðir Ólafsson gerði sjö.