Körfubolti

Eigandi Sonics sækir um flutning á liðinu

Bennett keypti Sonics fyrir 350 milljónir dollara fyrir ári síðan
Bennett keypti Sonics fyrir 350 milljónir dollara fyrir ári síðan NordicPhotos/GettyImages

Clay Bennett, eigandi Seattle Supersonics í NBA deildinni, staðfesti í kvöld að hann ætlaði að óska eftir því við forráðamenn deildarinnar að liðið verði flutt frá Seattle eins fljótt og hægt er.

Bennett keypti liðið fyrir ári síðan en nú um mánaðamótin rann út frestur sem hann setti til að hægt væri að semja um byggingu nýrrar hallar fyrir liðið í Seattle. Viðræður við ríkisstjórnina í Washington og borgaryfirvöld í Seattle gengu lítið og því hefur Bennett ákveðið að liðið verði flutt - ásamt kvennaliði Seattle Storm í WNBA.

Seattle er með leigusamning við KeyArena höllina út árið 2010 sem það verður að efna, en búist er við að Bennett og félagar muni reyna að semja sig út úr honum. Hann hefur frest til 1. mars á næsta ári til að sækja um að liðið verði flutt og verður að gera það ef liðið á að spila utan Seattle á næstu leiktíð. Bennett segir að þrátt fyrir ítrekaða viðleitni sína sé einfaldlega ekki nægur stuðningur við liðið í Seattle og því verði það að fara annað.

Bennett er frá Oklahoma City og ætlar sér að koma liðinu fyrir þar í framtíðinni. Borgin hýsti lið New Orleans Hornets með miklum ágætum eftir að fellibylurinn Katrín reið yfir á sínum tíma og síðan hefur mikið verið rætt um að borgin fái til sín NBA lið. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×