Sport

Jóhann Rúnar og Karen Björg best

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhann Rúnar og Karen Björg með viðurkenningar sínar.
Jóhann Rúnar og Karen Björg með viðurkenningar sínar. Mynd/E. Stefán

Íþróttasamband fatlaðra útnefndi í dag þau Jóhann Rúnar Kristjánsson og Karen Björg Gísladóttur íþróttamann og -konu ársins 2007 við hátíðlega athöfn.

Margrét Kristjánsdóttir hjá íþróttafélaginu Ösp hlaut Guðrúnarbikarinn í ár en hann er veittur til þeirra sem leggja hreyfingunni lið á hvaða hátt sem er.

Jóhann Rúnar keppir í borðtennis og er við það að tryggja sér sæti á Ólympímóti fatlaðra sem fer fram í Peking í Kína á næsta ári. Hann mun keppa á opna bandaríska meistaramótinu í lok mánaðarins í því skyni að tryggja endanlega sæti sitt á mótinu.

Jóhann Rúnar slasaðist í mótorhjólaslysi árið 1994 og er lamaður upp að brjósti. Hann hóf að iðka borðtennis á Reykjalundi á meðan endurhæfingunni stóð en svo markvissar æfingar árið 1997.

Undanfarið hefur hann keppt í fjölmörgum mótum á erlendri grundu og skipað sér sess á meðal þeirra bestu í heiminum í sínum fötlunarflokki.

Karen Björg er sextán ára gömul en hefur æft sund frá unga aldri hjá íþróttafélaginu Firði í Hafnarfirði. Hún keppir í flokki þroskaheftra og er í úrvalsliði Íþróttasambands fatlaðra.

Hún þykir eitt mesta efni sem hefur komið fram í sínum fötlunarflokki. Hún er núverandi handhafi Sjómannabikarsins og stefnir á þátttöku á heimsmeistaramóti þroskaheftra í Tékklandi árið 2009.

Hún tók þátt í Norðurlandamóti fatlaðra sem var haldið hér á landi í sumar og vann þar til fimm gullverðlauna og varð Norðulandameistari í öllum þeim greinum sem hún tók þátt í.

Karen Björg tekur við viðurkenningu sinni.Mynd/E. Stefán
Jóhann Rúnar kátur með bikarinn góða.Mynd/E. Stefán
Kristín Rós Hákonardóttir fékk eignarbikar fyrir að vera kjörin íþróttakona ársins af ÍF í fyrra.Mynd/E. Stefán
Margrét Kristjánsdóttir hjá íþróttafélaginu Ösp fékk Guðrúnarbikarinn í ár.Mynd/E. Stefán



Fleiri fréttir

Sjá meira


×