Körfubolti

Lakers lagði Chicago

Kobe Bryant lætur nárameiðsli ekki stöðva sig
Kobe Bryant lætur nárameiðsli ekki stöðva sig NordicPhotos/GettyImages

Þrír leikir fóru fram í NBA deildinni í körfubolta í nótt. LA Lakers vann góðan sigur á Chicago á útivelli 103-91, en stuðningsmenn Chicago létu þá vera að kalla nafn Bryant eins og þeir gerðu eftir eitt stórtap liðsins í haust.

Chicago var eitt þeirra liða sem orðað hafði verið við Bryant eftir að hann fór fram á að verða skipt frá Lakers í sumar og eftir eitt stórtapið í haust hrópuðu stuðningsmenn Chicago "Kobe, Kobe" og lýstu yfir vilja sínum til að fá skorarann til liðs við félagið.

Ekkert slíkt heyrðist í United Center í nótt, en þó sýndi ungur stuðningsmaður Chicago vilja sinn í verki og mætti í Bulls treyju sem hann var búinn að skrifa á númer Kobe Bryant - númer 24.

Sasha Vujacic var stigahæstur í liði Lakers með 19 stig í nótt, Bryant bætti við 18 stigum þrátt fyrir nárameiðsli og Lamar Odom skoraði 17 stig og hirti 16 fráköst. Luol Deng skoraði 26 stig fyrir Chicago, sem hefur unnið aðeins 8 leiki í deildinni og tapað 14. Lakers hefur aftur unnið 15 og tapað 9.

Sacramento vann góðan útisigur á New Jersey 106-101. Richard Jefferson skoraði 36 stig fyrir heimamenn og Jason Kidd skoraði 11 stig, hirti 10 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. John Salomons átti sinn besta leik á ferlinum fyrir Sacramento og skoraði 31 stig, Francisco Garcia skoraði 24 af bekknum, Brad Miller skoraði 23 stig og hirti 10 fráköst og Ron Artest skoraði 20 stig.

Loks vann Toronto sigur á LA Clippers á útivelli 80-77 þar sem Chris Bosh skoraði 24 stig og hirti 9 fráköst fyrir Toronto og varð þar með frákastahæsti leikmaður í sögu Toronto og komst upp fyrir Antonio Davis á listanum. Corey Maggette skoraði 22 stig fyrir Clippers og Chris Kaman skoraði 12 stig og hirti 16 fráköst.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×