Cleveland batt í nótt enda á sigurgöngu Miami og er enn ósigrað á heimavelli í NBA-deildinni í vetur. Sex leikir fóru fram í deildinni í nótt.
Cleveland vann leikinn með sjö stiga mun, 93-86. LeBron James skoraði 33 stig í leiknum fyrir Cleveland, fjórum stigum meira en Dwyane Wade gerði fyrir Miami. Cleveland er eina liðið í NBA-deildinni sem er enn ósigrað á heimavelli á tímabilinu.
Cleveland var þó níu stigum undir þegar að fjórði leikhluti hófst en liðið komst á 18-2 sprett þegar átta mínútur voru til leiksloka.
Mo Williams var með 20 stig í leiknum og Ben Wallace tók fjórtán fráköst.
Boston vann stórsigur á Sacramento, 108-63. Kevin Garnett var með 21 stig og ellefu fráköst en þetta var sjötti stærsti sigur Boston í sögu félagsins en liðið vann einnig New York með sama mun á síðasta tímabili.
Dallas vann LA Clippers, 98-76. Josh Howard var með 29 stig, níu fráköst og sjö stoðsendingar en Dirk Nowitzky tók út leikbann í leiknum fyrir að slá til Matt Harpring í leik Dallas og Utah á föstudagskvöldið.
Denver vann New York, 117-110. Carmelo Anthony skoraði 32 stig fyrir Denver og Chauncey Billups bætti við fjórtán.
New Orleans vann Indiana, 105-103, þar sem Chris Paul skoraði ellefu stig. David West tryggði sínum mönnum sigur með því að setja niður körfu þegar 2,5 sekúndur voru eftir.
LA Lakers vann Golden State, 130-113. Kobe Bryant skoraði 31 stig og Derek Fisher bætti við nítján fyrir Lakers.
