Körfubolti

Valur sló Skallagrím úr leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jón Nordal Hafsteinsson og félagar í Keflavík eru komnir áfram í fjórðungsúrslit bikarsins.
Jón Nordal Hafsteinsson og félagar í Keflavík eru komnir áfram í fjórðungsúrslit bikarsins.

Þrír leikir fóru fram í sextán liða úrslitum Subwaybikarkeppni karla og tveir í kvennaflokki í kvöld.

Í karlaflokki gerði 1. deildarlið Vals sér lítið fyrir og vann úrvalsdeildarlið Skallagríms í Borgarnesi, 82-79.

Þá unnu Keflavík og ÍR sína leiki. Haukar og Fjölnir eru komin áfram í kvennaflokki.

Valur byrjaði betur í leiknum en leikurinn var þó jafn í síðari hálfleik. Staðan var jöfn þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum en Jason Harden fór mikinn á lokakafla leiksins og skoraði síðustu sjö stig Vals, þar af nýtti hann öll fjögur vítaskot sín á síðustu 20 sekúndum leiksins.

Hjalti Friðriksson var stigahæstur í liði Vals með 27 stig, Steingrímur Gauti Ingólfsson kom næstur með nítján og Harden fjórtán.

Hjá Skallagrími skoraði Igor Beljanski 26 stig auk þess sem hann tók þrettán fráköst. Landon Quick skoraði fjórtán stig.

ÍR vann sigur á Tindastóli, 69-56, eftir öfluga frammistöðu í síðari hálfleik.  Hreggviður Magnússon fór á kostum í leiknum og skoraði 31 stig og tók sjö fráköst.

Þá vann Keflavík stórsigur á Hetti á heimavelli, 107-58. Hörður Axel Vilhjálmsson var stigahæsti leikmaður Keflavíkur með sautján stig en allri tólf leikmenn liðsins komust á blað í kvöld.

Í kvennaflokki unnu Haukar sigur á KR-b, 117-45, og Fjölnir vann b-liði Grindavíkur, 86-49.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×