Það vakti athygli í byrjun tímabils í NBA deildinni að framherjinn Carmelo Anthony hjá Denver Nuggets hafði látið klippa sig.
Anthony hefur haft nokkuð slæmt orð á sér fyrir að vera vandræðagemsi innan sem utan vallar og undirstrikaði það með húðflúri og hárgreiðslu.
Hann er nú með rakaðan koll eins og flestir leikmenn í deildinni, en raksturinn kom ekki til af góðu. Anthony tapaði nefnilega veðmáli við félaga sinn þegar hann var að spila NBA Live leikinn í tölvunni og því þurfti hárið að fjúka.
Smelltu hér til að sjá myndband af veðmálinu og höfuðrakstrinum fræga.
Denver hefur unnið þrjá af fyrstu sex leikjum sínum í deildinni en Anthony hefur reyndar ekki spilað nema fjóra þeirra vegna leikbanns sem hann tók út í fyrstu tveimur leikjunum. Hann er með 23,3 stig að meðaltali og 7 fráköst.