Körfubolti

NBA í nótt: Fjórði sigur Orlando í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dwight Howard, leikmaður Orlando Magic.
Dwight Howard, leikmaður Orlando Magic. Nordic Photos / Getty Images
Orlando Magic vann í nótt sinn fjórða sigur í röð í NBA-deildinni í körfubolta er liðið vann Washington, 106-81. Alls fóru sex leikir fram í deildinni í nótt.

Washington hefur tapað öllum sínum leikjum til þessa á tímabilinu en leikmenn liðsins réðu ekkert við Dwight Howard sem skoraði 31 stig og tók sextán fráköst.

Gilbert Arenas og Brendan Haywood eru báðir meiddir og gátu því ekki spilað með Washington í nótt. Þar að auki fékk Caron Butler skurð á auga í öðrum leikhluta en spilaði þó á ný í síðari hálfleik.

Washington er eina liðið í Austurdeildinni sem er enn án sigurs. Nick Young var stigahæstur í liðinu með 20 stig.

Mickael Pietrus bætti við átján stig fyrir Orlando sem hefur nú unnið fjóra leiki í röð eftir að hafa tapað fyrstu tveimur á tímabilinu.

Chicago varð fyrir áfalli í nótt er Kirk Hinrich meiddist og verður hann frá næstu þrjá mánuðina. Hann þarf að gangast undir aðgerð þar sem að hann reif liðband í þumalputta.

Chicago tapaði fyrir Cleveland í nótt, 106-97, þar sem LeBron James var stigahæstur með 41 stig.

Indiana vann New Jersey, 98-80. Danny Granger skoraði 23 stig fyrir Indiana en Vince Carter 31 stig fyrir gestina. Devin Harris, leikmaður New Jersey, meiddist í leiknum en hann skoraði 38 stig í sigri liðsins á Detroit á föstudagskvöldið.

New Orleans vann Miami, 100-89, þar sem Chris Paul skoraði 21 stig fyrir New Orleans sem um leið vann sinn fyrsta leik í síðustu þremur leikjum.

Phoenix vann Milwaukee, 104-96. Shaquille O'Neal var með 29 stig og ellefu fráköst fyrir Phoenix.

Portland vann Minnesota, 97-93. LaMarcus Aldridge og Brandon Roy skoruðu hvor 24 stig í leiknum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×