Framtíð japanska Super Aguri liðsins í Formúlunni er í mikilli óvissu. Ekki er ljóst hvort liðið verði með í kappakstrinum á Spáni um komandi helgi.
Super Aguri liðið á við fjárhagsvanda að stríða og illa hefur gengið að finna kaupendur. Dubai International Capital ætlaði að leggja pening í liðið en hefur víst hætt við það.
Super Aguri ætlar að reyna að keppa í Barcelona um helgina en ökumennirnir Takuma Sato og Anthony Davidsson verða að bíða til að komast að því hvort þeir muni aka á sunnudag.
Liðið er í neðsta sæti í keppni bílasmiða en það hefur verið að nota vélar frá Honda og hefur einnig fengið styrk frá japanska bílaframleiðandanum. Sú aðferð verður þó ólögleg frá og með 2010.