Erlent

Kanna hvaðan askan í pottum Maya kom

Efnagreining á eldfjallaöskunni sem hinir fornu Mayar í Mið-Ameríku og Mexíkó notuðu til pottagerðar, getur að öllum líkindum komið vísindamönnum á snoðir um hvaðan hráefnið var fengið.

Það hefur löngum verið ráðgáta hvaðan það efni kom sem Mayar notuðu til að smíða leirtau sitt en þessir frumbyggjar Mexíkó og Mið-Ameríku voru brautryðjendur í ýmiss konar handverki og listmunasmíð.

Blanda af leir og ösku var notuð við gerð pottanna og virðist hún hafa gert þeim kleift að standast tímans tönn lengur en mörg búsáhöld frá sama tímabili. Hið síðklassíska tímabil Mayanna stóð frá 600 til 900 og er margt leirmunanna frá þeim tíma.

Löngum var talið að askan kæmi úr eldfjalli skammt frá El Pilar sem var Mayaborg nálægt landamærum Belize og Guatemala en nú hefur komið í ljós að samsetning öskunnar kemur ekki heim og saman við það en líkist fremur ösku úr fjalli í mörg hundruð kílómetra fjarlægð.

Það er því ráðgáta hvernig Mayarnir, sem hvorki höfðu vegi né burðardýr, gátu flutt níðþunga öskufarma svo langa vegalengd. Eitthvað sem fornleifafræðingar geta klórað sér í höfðinu yfir næstu misserin.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×