Erlent

Japönsk stjörnustríðsáætlun í bígerð

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Öflugustu eldflaugar Norður-Kóreumanna geta borið sprengjuhleðslu allt að 15.000 kílómetra vegalengd.
Öflugustu eldflaugar Norður-Kóreumanna geta borið sprengjuhleðslu allt að 15.000 kílómetra vegalengd. MYND/Militarypictures.info

Japanar hyggjast efla loftvarnakerfi sitt og koma sér upp eldflaugavarnakerfi með gagnárásarbúnaði.

Japönsk varnarmálayfirvöld ræða nú möguleikann á að gangsetja kerfi sem nemur þegar eldflaug er skotið á loft í einhverju af nágrannaríkjunum, til dæmis Norður-Kóreu, með stefnu á Japan. Þessu greinir japanska dagblaðið Yomiuri Shimbun frá í dag.

Það er geimhernaðarstofnun japönsku stjórnarinnar með Taro Aso forsætisráðherra í broddi fylkingar sem skoðar málið nú á alla kanta og er nýja kerfinu ekki einvörðungu ætlað að greina árás heldur einnig verjast henni með því að skjóta árásarflaugina niður með minni eldflaug, atburðarás sem minnir um margt á hina aldarfjórðungsgömlu stjörnustríðsáætlun Ronalds Reagan.

Markmið japanska kerfisins eru þó háleitari en svo að það verði eingöngu nothæft í styrjöld. Gervihnettirnir sem bera kerfið uppi verða um leið notaðir til að bæta fjarskipti í Japan og fylgjast með náttúruhamförum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×