Körfubolti

NBA í nótt: Mason frábær er San Antonio vann Utah

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roger Mason var illviðráðanlegur í nótt.
Roger Mason var illviðráðanlegur í nótt. Nordic Photos / Getty Images

San Antonio vann í nótt sigur á Utah í NBA-deildinni í körfubolta þar sem Roger Mason fór á kostum og skoraði 29 stig.

San Antonio fékk Mason nú í sumar þegar hann var laus undan samningi sínum við Washington og var honum ekki ætlað stórt hlutverk með liðinu. En þegar að Tony Parker og Manu Ginobili meiddust í haust fékk hann tækifærið sem hann hefur nýtt vel.

Mason hitti alls úr tíu af sautján skotum sínum utan af velli, þar af nýtti hann sjö af tíu þriggja stiga skotum sínum. Liðið allt nýtti fimmtán af 25 þriggja stiga skotum sínum.

„Þegar við fáum alla til baka úr meiðslunum mun Mason gefa okkur þá dýpt sem okkur hefur skort," sagði Gregg Popovich, þjálfari San Antonio. „Mér fannst hann frábær á báðum endum vallarins í kvöld. Hann nýtti sér vel þau sóknarfæri sem hann fékk og stóð sig almennt mjög vel."

Nýliðinn George Hill skoraði 23 stig fyrir San Antonio og Tim Duncan átján.

Carlos Boozer var ekki með Utah í nótt vegna meiðsla og Deron Williams er enn frá. Utah hefur ekki unnið San Antonio í nítján leikjum, ekki síðan í febrúar 1999.

Ronnie Brewer skoraði sautján stig fyrir Utah og CJ Miles sextán.

Úrslit í NBA-deildinni í nótt:

Indiana - Orlando 98-100

Philadelphia - LA Clippers 89-88

Toronto - New Jersey 127-129

Washington - Houston 91-103

Atlanta - Charlotte 88-83

Minnesota - Boston 78-95

Dallas - Memphis 91-76

Milwaukee - New York 104-87

San Antonio - Utah 119-94

Oklahoma City - New Orleans 80-105

Sacramento - Portland 96-117

Golden State - Chicago 110-115

LA Lakers - Denver 104-90



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×