Körfubolti

Enn einn þjálfarinn rekinn í NBA

Mo Cheeks fékk að gjalda fyrir lélega byrjun Philadelphia í vetur
Mo Cheeks fékk að gjalda fyrir lélega byrjun Philadelphia í vetur NordicPhotos/GettyImages

Mo Cheeks hjá Philadelphia 76ers varð í kvöld fimmti þjálfarinn sem rekinn er í NBA deildinni á leiktíðinni.

Cheeks og félagar í Sixers hafa valdið miklum vonbrigðum í vetur og hefur liðið aðeins unnið níu leiki en tapað fjórtán.

Cheeks hafði fengið samning sinn framlengdan í tvígang á síðasta ári, en þolinmæði eigenda í NBA deildinni virðist vera í sögulegu lágmarki þessa dagana.

Philadelphia var eitt af spútnikliðunum í NBA deildinni á lokasprettinum á síðustu leiktíð og væntingarnar því miklar í vetur - ekki síst eftir að félagið fékk til sín kraftframherjann öfluga Elton Brand í sumar.

Dæmið hefur þó ekki gengið upp enn sem komið er og því fékk Cheeks að taka pokann sinn hjá félaginu sem hann spilaði fyrir um árabil sem leikmaður.

Philadelphia tapaði fyrir Cleveland í gærkvöldi og var það áttunda tap liðsins í síðustu tíu leikjum.

Það verður aðstoðarframkvæmdastjóri félagsins Tony DiLeo sem tekur við þjálfun Philadelphia þar til eftirmaður Cheeks finnst.

Heyrst hefur að Eddie Jordan, sem rekinn var úr þjálfarastólnum hjá Washington Wizards fyrir skömmu, gæti verið í sigtinu hjá Sixers.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×