Bakvörðurinn Shaun Livingston hefur undirritað tveggja ára samning við Miami Heat í NBA deildinni, einum og hálfu ári eftir að hræðileg meiðsli voru talin hafa bundið endi á feril hans.
Livingston var valinn fjórði í nýliðavalinu af LA Clippers árið 2004 og þótti mikið efni, en í febrúar á síðasta ári fór hann úr hnjálið í leik og sleit þrjú liðbönd.
Fæstir áttu von á því að Livingston myndi geta spilað í NBA aftur, en hann hefur nú landað samningi við Miami.
Livingston hefur enn ekki viljað horfa á myndbandsupptöku af því þegar hann meiddist, en eins og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni, var það ekki falleg sjón.