Körfubolti

NBA í nótt: Sautjándi sigur Houston í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn Houston með skemmtilega vísun í sigurgöngu liðsins og bandaríska háskólaboltann.
Stuðningsmenn Houston með skemmtilega vísun í sigurgöngu liðsins og bandaríska háskólaboltann. Nordic Photos / Getty Images

Houston bætti enn félagsmet sitt í nótt er liðið vann sinn sautjánda leik í röð í NBA-deildinni en á sama tíma vann San Antonio sinn ellefta leik í röð.

Houston vann sigur á Dallas í nótt, 113-98, sem lék án Dirk Nowitzky þar sem hann tók út leikbann í leiknum. Tracy McGrady var með 31 stig og níu stoðsendingar auk þess sem Rafer Alston skoraði 24 stig.

Þetta var fimmti sigur liðsins í jafn mörgum leikjum síðan að Yao Ming meiddist en hann verður frá út leiktíðina af þeim sökum.

Sigurganga Houston er sú sjöunda besta í sögu NBA-deildarinnar en á laugardaginn tekur liðið á móti New Orleans sem er í þriðja sæti Vesturdeildarinnar.

Hjá Dallas var Josh Howard stigahæstur með 21 stig og Jason Terry var með sautján stig. Þetta var þriðja tap Dallas í röð og það fjórða í fimm leikjum.

San Antonio vann Indiana, 108-97, og þar með sinn ellefta sigur í röð sem fyrr segir. Manu Ginobili skoraði 28 stig fyrir meistarana og Tony Parker bætti við nítján stigum.

Hjá Indiana var Danny Granger stigahæstur með 22 stig en þeir Mike Dunleavy og Troy Murphy bættu við þrettán stigum hver.

Chicago vann góðan sigur á Cleveland, 107-96. Ben Gordon og Luol Deng skoruðu 23 stig hver en stigahæstur hjá Cleveland var LeBron James með 39 stig.

Chicago komst í sautján stiga forystu undir lok þriðja leikhluta og dugði það til að halda aftur af LeBron og félögum í lokaleikhlutanum.

Staðan í deildinni

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×