Körfubolti

Nowitzki vill meira

Nordic Photos / Getty Images

Þjóðverjinn Dirk Nowitzki varð á dögunum stigahæsti leikmaður í sögu Dallas Mavericks. Hann segist ánægður með áfangann en þráir ekkert heitar en að vinna meistaratitil með félaginu.

Þeir voru ekki margir sem höfðu trú á Nowitzki þegar hann kom til Dallas árið 1998 sem horaður og óreyndur unglingur beint frá Þýskalandi.

"Þegar ég kom hingað fyrst, átti ég síður von á því að ná að skora þúsund stig - hvað þá hátt í sautján þúsund eins og núna," sagði Nowitzki í samtali við Dallas News.

"Hvað sem gerist, þá mun ég alltaf geta horft til baka og rifjað upp hvað þetta hefur verið ótrúlegur tími. Ég vil geta horft til baka eftir 10 eða 20 ár og vitað að ég hafi átt meira inni, sérstaklega að vinna titil. Það yrði mjög dýrmætt," sagði Nowitzki.

Hann hefur verið í miklu stuði með Dallas að undanförnu og er til að mynda með 30,7 stig, 9,2 fráköst og 50% nýtingu í síðustu 11 leikjum sínum.

Nowitzki var öðrum fremur gagnrýndur í fyrravor þegar lið Dallas féll út úr úrslitakeppninni í fyrstu umferð fyrir Golden State - en Dallas liðið var þá með bestan árangur allra liða í deildarkeppninni og Nowitzki var skömmu síðar kjörinn verðmætasti leikmaður ársins í NBA.

Það er ljóst að fáir leikmenn hafa því meira að sanna en Nowitzki þegar úrslitakeppnin í NBA hefst í næsta mánuði, en baráttan í Vesturdeildinni er sú harðasta í manna minnum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×