Ballantine-meistaramótið í golfi hófst í Suður-Kóreu í dag en mótið er hluti af Evrópumótaröðinni í golfi. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkt mótið er haldið þar í landi.
Ástralinn Tony Carolan og Mikko Ilonen frá Finnlandi eru efstir og jafnir eftir fyrsta keppnisdaginn en þeir léku á 67 höggum, fimm undir pari vallarins.
Alls léku 60 kylfingar undir pari vallarins í dag og er því nokkuð ljóst að spennan verður mikil eftir því sem líða tekur á mótið.
Meðal þekktra kylfinga á mótinu má nefna Anthony Kim sem lék á fjórum undir pari, Chris DiMarco sem var á tveimur undir og Padraig Harrington sem lék á einu höggi undir pari.
Heimamaðurinn KJ Choi, sem er í fimmta sæti heimslistans í golfi, er sömuleiðis á einu höggi undir pari.