Erlent

Mögulegt að ís hafi fundist á Mars

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Vísindamenn telja geimfarið Phoenix sem lenti nálægt norðurpól Mars fyrir tæpum mánuði hafa grafið niður á ís. Myndir frá Phoenix sýna mola af ljósu efni sem kom upp á yfirborðið þegar vélarmur á geimfarinu gróf skurð í yfirborð plánetunnar rauðu.

Efnið var horfið þegar önnur mynd barst frá Phoenix nokkrum dögum síðar og telja vísindamenn það óræka sönnun þess að um ís hafi verið að ræða sem svo hafi gufað upp eftir að hann kom fram í dagsljósið. Í upphafi kom til greina að um salt væri að ræða en hvarf efnisins þykir benda ótvírætt til íss þar sem salt myndi ekki hverfa þrátt fyrir að grafið væri ofan af því.

Þegar geimfarið tók til við að grafa annan skurð í gær lenti vélarmur þess á hörðu undirlagi og varð frá að hverfa eftir þrjár tilraunir til að komast í gegnum það. Fræðimenn geimvísindastofnunarinnar gera því skóna að þarna hafi Phoenix grafið niður á íshellu en ís á Mars gæti bent til þess að líf þrífist þar eða hafi þrifist þar. Jarðvegssýni sem hitað var upp með sérstökum búnaði í geimfarinu sýndi þó engin merki um vatn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×