Leikstjórnandinn Derrick Rose hjá Chicago Bulls hefur verið kjörinn nýliði ársins í NBA deildinni. Formlega verður tilkynnt um valið í kvöld en Chicago Tribune hefur greint frá þessu fyrst miðla.
Rose skoraði 16,8 stig og gaf 6,3 stoðsendingar að meðaltali í leik með Chicago í vetur og hefur verið orðaður við nýliðaverðlaunin frá fyrsta degi tímabilsins.
Rose er þriðji leikmaðurinn í sögu Chicago Bulls til að verða kjörinn nýliði ársins, hinir voru Michael Jordan og Elton Brand.
Leikstjórnandinn ungi hefur farið á kostum í sínum fyrstu tveimur leikjum í úrslitakeppni þar sem liðið er að stríða meisturum Boston Celtics. Staðan í einvíginu er 1-1 eftir tvo leiki í Boston þar sem Rose hefur spilað eins og engill.
Hann skoraði 36 stig og gaf 11 stoðsendingar í sínum fyrsta leik í úrslitakeppni, sem er ein besta frammistaða nýliða í frumraun sinni í úrslitakeppni í sögu NBA.