Körfubolti

Umfjöllun: Hamar fyrst liða til að leggja KR

Elvar Geir Magnússon skrifar
Hamar lagði KR í kvöld.
Hamar lagði KR í kvöld.

Hamar frá Hveragerði komst í kvöld í átta liða úrslit Subway-bikarsins í kvennaflokki. Liðið gerði sér lítið fyrir og vann virkilega sterkan tíu stiga sigur á KR í Vesturbænum, lokatölur urðu 64-74.

KR var skrefinu á undan stærstan hluta leiksins en gestirnir aldrei langt undan. Það var svo í upphafi lokafjórðungsins að Hamarsliðið gerði út um leikinn, keyrði yfir Vesturbæjarliðið og fögnuðurinn ósvikinn eftir leik.

Fyrir leikinn hafði KR unnið alla leiki sína á tímabilinu og sumir sagt að liðið væri óstöðvandi. Það afsannaðist í kvöld. Þarna voru að mætast tvö efstu liðin á Íslandsmótinu og var ljóst að sigurliðið í leiknum yrði sigurstranglegast í þessari bikarkeppni.

Fyrsti leikhlutinn einkenndist af misheppnuðum skottilraunum beggja liða og var staðan 9-9 að honum loknum. Leikmenn fóru að finna fjölina betur í öðrum leikhluta og staðan í hálfleik var 30-28, KR í vil.

Staðan fyrir síðasta leikhluta var jöfn 48-48. Eins og Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars, benti á eftir leikinn er þetta staða sem KR hefur ekki fengið að kynnast í vetur enda hefur liðið venjulega verið búið að gera út um leikinn fyrir síðasta fjórðung.

KR byrjaði lokafjórðunginn mjög illa á meðan gestirnir frá Hveragerði voru í miklum ham og náðu að skora 14 stig í röð. Það var þessi kafli í leiknum sem gerði útslagið og Vesturbæjarkonum mistókst að vinna þetta upp á þeim tíma sem eftir var.

Sigrún Ámundadóttir skoraði 18 stig fyrir Hamar á móti sínum gömlu félögum. Jenny Pfieffer-Finora skoraði 18 stig fyrir KR.

KR - Hamar 64-74 (30-28)

Stig KR: Jenny Pfieffer-Finora 18, Signý Hermannsdóttir 14, Guðrún Þorsteinsdóttir 9, Margrét Kara Sturludóttir 8, Unnur Tara Jónsdóttir 6, Hildur Sigurðardóttir 6, Helga Einarsdóttir 3.

Stig Hamars: Sigrún Ámundadóttir 18, Guðbjörg Sverrisdóttir 17, Koren Schram 13, Fanney Guðmundsdóttir 13, Kristrún Sigurjónsdóttir 9, Sóley Guðgeirsdóttir 3, Hafrún Hálfdánardóttir 1.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×