Seinni umferð B-deildar Evrópukeppninnar í körfubolta heldur áfram í kvöld þar sem bæði karla -og kvennalandslið Íslands eiga leik.
Karlalandsliðið mætir Dönum í Danmörku og hefst leikurinn kl. 17.15 en Ísland vann fyrri leik liðanna í Reykjavík og er það eini sigurleikur liðsins í riðlinum til þessa.
Ásamt Danmörku eru Holland, Austurríki og Svartfjallaland einnig í riðlinum með Íslandi.
Kvennalandsliðið mætir Hollendingum að Ásvöllum í kvöld kl. 19.15 en hollenska liðið vann fyrri leikinn í Hollandi eftir að íslenska liðið hafði leitt leikinn lengi vel.
Þetta er annar leikur íslenska liðsins í seinni umferðinni en sá fyrri tapaðist gegn Svisslendingum. Eini sigurleikur íslenska liðsins kom í fyrri umferðinni gegn Sviss.