Handbolti

U-19 ára landslið Íslands mætir Túnis í undanúrslitunum

Ómar Þorgeirsson skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Mynd/Stefán

Strákarnir í U-19 ára landsliði Íslands hafa farið mikinn á Heimsmeistaramóti U-19 ára landsliða sem nú fer fram í Túnis.

Ísland vann 43-37 sigur gegn Noregi í gærkvöld og mætir heimamönnum í Túnis í undanúrslitaleik á morgun. Svíar og Króatar mætast í hinum undanúrslitaleiknum.

Aron Pálmarsson var markahæstur hjá Íslandi í gær með 11 mörk en þeir Ólafur Guðmundsson og Guðmundur Árni Ólafsson skoruðu 8 mörk hvor.

Ísland á tvo leikmenn á topp tíu yfir markahæstu leikmenn mótsins en það eru þeir Guðmundur Árni Ólafsson, sem leikur með Haukum næsta vetur eftir að hafa áður leikið með Selfossi og Ólafur Guðmundsson úr FH sem báðir hafa skoraði 30 mörk. Sajad Esteki frá Íran er markahæstur í mótinu til þessa með 53 mörk.

Þá er markvörðurinn Arnór Stefánsson hjá íslenska liðinu í fimmta sæti yfir flest vörð skot en hann hefur varið 48 skot í mótinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×