KR er enn ósigrað í Iceland Express deild kvenna í körfubolta eftir sigur á Grindavík á heimavelli í kvöld, 81-56.
Grindavík var fyrir leikinn búið að vinna fjóra leiki í röð en þær áttu aldrei möguleika í kvöld. Staðan í hálfleik var 38-28, KR í vil.
KR byrjaði mjög vel í leiknum, lék sterka vörn og beitti hröðum sóknum sem Grindvíkingar réðu ekkert við. Fljótlega náði KR undirtökunum í leiknum og lét forystuna aldrei af hendi eftir það.
Grindvíkingar voru talsvert frá sínu besta í sínum sóknarleik en það lagaðist í öðrum leikhluta þegar þeir fóru að spila ákveðinn varnarleik sem kom KR í nokkuð opna skjöldu.
En í seinni hálfleik tóku KR-ingar aftur öll völd á vellinum og juku muninn jafnt og þétt. Grindavík hóf fjórða leikhluta með því að setja niður tvö þriggja stiga skot og minnka muninn í ellefu stig en þá fór KR á 12-0 sprett og gerði endanlega út um leikinn.
Signý Hermannsdóttir átti mjög góðan leik, sérstaklega í vörninni en hún lét einnig mikið af sér kveða í sókninni. Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir og Margrét Kara Sturludóttir voru einnig mjög áberandi í liði KR og spiluðu mjög vel.
Hjá Grindavík voru þær Petrúnella Skúladóttir og Jovana Lilja Stefánsdóttir í fyrirrúmi.